Keldur á Rangárvöllum
Keldur eru fornt höfuðbýli þar sem höfðingi Oddaverja, Jón Loftsson, bjó sín síðustu æviár. Á Keldum var jafnframt kaþólskt klaustur í eina tíð. Þar er að finna torfbæ af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem hefur varðveist á Suðurlandi. Úr skálanum liggja jarðgöng sem talin eru vera frá 12. eða 13. öld og hafa vafalítið verið notuð sem undankomuleið á ófriðartímum.
Þó svo að kjarni húsanna sé frá 19. öld þá er elsti hluti bæjarhússins elsti varðveitti hluti torfbæjar á Íslandi. Fjöldi útihúsa hafa einnig varðveist á Keldum. Þar er jafnframt kirkja sem byggð var af Guðmundi Brynjólfssyni, hreppstjóra, árið 1875.
Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram nálægt bænum. Ábúendur á Keldum komu við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu helga.
Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafns Íslands.
Tíu hugmyndir að afþreyingu á Suðurlandi:
- Fáðu leiðsögn um manngerðu Hellana við Hellu, sem mögulega eru að hluta eldri en landnám Íslands.
- Heimsæktu eldfjalla- og jarðskjálftasýninguna LAVA á Hvolsvelli og Eldheima í Vestmannaeyjum.
- „Safnaðu“ fossum á Suðurlandi; aðrir áhugaverðir fossar eru meðal annars Gullfoss, Hjálparfoss, Háifoss, Gljúfrabúi og Seljalandsfoss.
- Skoðaðu hið fjölbreytta Skógasafn, eitt mest sótta safn á Íslandi.
- Ganga yfir Fimmvörðuháls, frá Skógum og að friðlandinu í Þórsmörk, er ein vinsælasta gönguleið á Íslandi.
- Farðu í skipulagað jöklagöngu á Sólheimajökul og í snjósleðaferð á Mýrdalsjökul.
- Baðaðu þig í Seljavallalaug eða í náttúrulauginni í Landmannalaugum. Magnað umhverfi er á báðum stöðum.
- Heimsæktu sögustaðinn Odda á Rangárvöllum, þar sem er falleg kirkja, minnisvarðinn Sæmundur á selnum og merkilegur fornleifauppgröftur (fleiri manngerðir hellar!)
- Finndu til smæðar þinnar við Skógafoss og farðu göngustíginn upp að brún hans. Ef þú heldur áfram upp eftir Skógaá muntu sjá fjölda fagurra en minni fossa.
- Skoðaðu nýja miðbæinn á Selfossi þar sem eru endurgerðir af þekktur íslenskum húsum frá því um 1900. Þar er einnig Skyrsafnið.
Nánari upplýsingar og hugmyndir á www.south.is