Minjasafnið að Hnjóti
Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti Örlygshöfn (stofnað 1983) varðveitir einstætt safn gamalla muna frá sunnanverðum Vestfjörðum sem veita innsýn í sögu sjósóknar, landbúnaðar og daglegs lífs. Þar er einnig að finna sýningu um björgunarafrekið við Látrabjarg árið 1947 og hattinn hans Gísla á Uppsölum.
Egill Ólafsson var fæddur og uppalinn á Hnjóti og byrjaði ungur að safna munum. Með áhuga sínum og framsýni varð til þetta merka minjasafn sem Egill og kona hans Ragnheiður Magnúsdóttir byggðu upp og gáfu sveitafélögunum í Vestur-Barðastrandarsýslu.
Í safninu er kaffitería, minjagripaverslun og svæðisupplýsingamiðstöð.
Tíu hugmyndir að afþreyingu á Vestfjörðum (frá Barðaströnd að Önundarfirði):
- Farðu út að Látrabjargi, mesta fuglabjargi á Íslandi. Það lætur engann ósnortinn.
- Skrepptu yfir á Rauðasand og skoðaðu einstaka ljósa sandströndina þar.
- Farðu um um friðlandið í Vatnsfirði á Barðaströnd þar sem fegurðin er við hvert fótmál.
- Heimsæktu Skrímslasafn Íslands á Bíldudal, þó það sé aðeins fyrir þá sem eru óhræddir.
- Skoðaðu listasafn Samúels Jónssonar (1884-1969) í Selárdal við Arnarfjörð en hann var oft kallaður “listamaðurinn með barnshjartað”.
- Gakktu upp með Dynjanda, frægasta fossi Vestfjarða.
- Heimsæktu Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar og skoðaðu sýningu um manninn.
- Skoðaðu Gömlu smiðjuna á Þingeyri frá 1913 þar sem allar vélar virka enn.
- Leggðu leið þína í listigarðinn Skrúð í Dýrafirði, sem aðrir skrúðgarðar á Íslandi draga nafn sitt af.
- Heimsæktu Gömlu bókabúðina á Flateyri þar sem kennir ýmissa grasa.
Nánari upplýsingar á www.westfjords.is