Skrímslasetrið Bíldudal

ArfleifðÞjóðtrú

Í Skrímslasetrinu Bíldudal er haldið utan um skrímslasögur sem lifað hafa með þjóðinni í gegnum aldirnar. Sagt er frá viðureignum manna og skrímsla á nýstárlegan og spennandi hátt. Skemmtileg umgjörð sýningarinnar hefur vakið hrifningu gesta og komið skemmtilega á óvart.

Fjöldi skrímsla hefur sést við Íslandsstrendur í gegn um aldirnar og síðustu tvöhundruð ár hafa þau verið algengust í kring um Vestfirði. Þess vegna lá það beinast við að setja upp Skrímslasetur á Bíldudal. Fjögur höfuðskrímsli eru þekktust og hafa þau öll sést í Arnarfirði. Þetta eru Fjörulalli, Faxi, Skeljaskrímsli og Hafmaður.

Fjörulallinn er algengastur og eru til fjöldi sagna um viðureignir manna við fjörulalla. Í Skrímslasetrinu eru allavega 36 skjalfestar frásagnir um Fjörulalla. Fjörulallinn er á stærð við hest nema miklu lágfættari. Hann er loðinn og hanga þaraþönglar, hrúðurkarlar og skeljar niður úr feldi hans. Hann er grábrúnn að lit með langa trjónu og kubbslegur í hreyfingum. Fjörulallinn reynir að læðast upp fyrir fólk í fjörunni og þröngva þeim með sér niður í sjóinn. Mönnum hefur tekist að sleppa frá honum með því að hlaupa eða stökkva yfir hann. Hann hefur oft sést á fjörubeit með kindum og eru til sagnir úr Breiðafirði þess efnis að Fjörulalli reyni að fara upp á kindurnar. Einnig eru nokkrar sögur til um að Fjörulalli laðist að óléttum konum af einhverjum undarlegum ástæðum. Seinast sást til þessarar skepnu um sumarið 2014

Skeljaskrímslið er sagt kubbslegt, höfuðstórt og kjaftmikið ferlíki. Ekki ósvipað flóðhesti að lögun en miklu stærra. Sjónarvottar hafa lýst því vera á stærð við risaeðlu. Það er þakið skeljum og það hringlar í skeljunum er það gengur á land.
Skeljaskrímslið sást síðast 1951 og þá frá nokkrum bæjum í Arnarfirði.

Faxaskrímsli, Marhross eða Faxi er rauðfext stórskrímsli með stór áberandi græn augu. Þessi skepna er sögð vera mjög lík drekum úr kínverskri list og víðar um heim. Þessi skepna hefur oft sést í Arnarfirði og kann að vera sama skepnan og kölluð var Rauðkembingur á öldum áður. Stafaði sjómönnum mikil hætta af þessu dýri. Í dag telja menn að skepna þessi lifi helst á Kúfskel og öðrim skelfiski. Sást síðast inni í Geirþjófsfirði tvö saman vorið 2010.

Hafmaðurinn er sagður það ljótasta kvikindi sem nokkur maður getur augum litið. Útlit hans á lítið skilt við hafmeyjar ævintýranna, nema í gömlum keltneskum sögnum segir að ef hafmeyjar nái ekki að giftast mennskum manni fyrir ákveðinn aldur neyðist þær til að giftast hafmanni og verða þær þá kafn ljótar og hann. Hafmaðurinn kemur sjaldan upp á land en þá gengur hann á tveimur fótum og dregur þungan magann eftir jörðinni. Hann er með mjög stuttar hendur og á þeim eru langar klær. Andlitið er lítið annað en kjaftur og augu. Kjafturinn er alsettur löngum beittum tönnum og augun eru starandi, mislit eftir frásögnum. Sagt er að menn hafi orðið vitstola af því einu að horfa framan í Hafmanninn. Hafmaðurinn sást síðast fyrir um 150 árum.

Tíu hugmyndir að afþreyingu í Arnarfirði og nágrenni:

  1. Skoðaðu listasafn Samúels Jónssonar (1884-1969) í Selárdal en hann var oft kallaður “listamaðurinn með barnshjartað”.
  2. Farðu yfir á Rauðasand og skoðaðu eintstaka sandströndina þar.
  3. Skoðaðu Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti og síðan hið stórkostlega Látrabjarg, helsta fuglabjarg á Íslandi.
  4. Gakktu upp með Dynjanda, frægasta fossi Vestfjarða.
  5.  Heimsæktu Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar og skoðaðu sýningu um manninn.
  6.  Skoðaðu Gömlu smiðjuna á Þingeyri frá 1913 þar sem allar vélar virka enn.
  7.  Leggðu leið þína í listigarðinn Skrúð í Dýrafirði, sem aðrir skrúðgarðar á Íslandi draga nafn sitt af.
  8.  Heimsæktu Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað á Ísafirði og lærðu meira  um sögu svæðisins.
  9.  Skoðaðu útsýnið af nýjum útsýnispalli á Bolafjalli, ef þú þorir!
  10.  Skrafaðu við vermann frá fornri tíð í Sjóminjasafninu í Ósvör.

Nánari upplýsingar á www.westfjords.is

Strandgötu 7, 465 Bíldudal
skrimsli@skrimsli.is
www.skrimsli.is
456 6666
Opnunartímar:

15. maí – 15. september alla daga 10-18.

HljóðleiðsögnHreinlætisaðstaðaMinjagripasalaSýningVeitingar
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is