Skrímslasetrið á Bíldudal
Sagt er frá viðureignum manna og skrímsla á nýstárlegan og spennandi hátt. Skemmtileg umgjörð sýningarinnar hefur vakið hrifningu gesta og komið skemmtilega á óvart.
Skrímsli við Íslandsstrendur og Vestfirði
Fjöldi skrímsla við Íslandsstrendur hefur sést í gegnum aldirnar og síðustu tvö hundruð ár hafa þau verið algengust í kringum Vestfirði. Þess vegna lá beinast við að setja upp Skrímslasetur á Bíldudal. Fjögur höfuðskrímsli eru þekktust og hafa þau öll sést í Arnarfirði: Fjörulalli, Faxi, Skeljaskrímsli og Hafmaður.
Fjörulalli – algengasta skrímslið á Bíldudal
Fjörulallinn er algengastur og eru til fjöldi sagna um viðureignir manna við hann. Í Skrímslasetrinu eru skjalfestar 36 frásagnir um Fjörulalla.
Hann er á stærð við hest, loðinn og grábrúnn að lit með langa trjónu. Fjörulallinn reynir að læðast upp fyrir fólk í fjörunni og þröngva þeim niður í sjóinn. Hann hefur oft sést á fjörubeit með kindum og sögur eru til úr Breiðafirði um að hann reyni að fara upp á kindurnar. Seinast sást til Fjörulalla sumarið 2014.
Skeljaskrímslið í Arnarfirði
Skeljaskrímslið er sagt kubbslegt, höfuðstórt og kjaftmikið ferlíki, líkt flóðhesti en miklu stærra. Það er þakið skeljum og hringlar í þeim þegar það gengur á land. Sjónarvottar hafa lýst því sem risaeðlu að stærð. Skeljaskrímslið sást síðast árið 1951 frá nokkrum bæjum í Arnarfirði.
Faxaskrímsli – rauðfext skrímsli með græn augu
Faxaskrímsli, einnig kallað Marhross eða Faxi, er rauðfext stórskrímsli með áberandi græn augu. Það líkist drekum úr kínverskri list og hefur oft sést í Arnarfirði. Sjómenn töldu það hættulegt og í dag er talið að það lifi helst á kúfskel og öðrum skelfiski. Faxaskrímsli sást síðast í Geirþjófsfirði vorið 2010.
Hafmaðurinn – ógnvænlegt skrímsli Íslands
Hafmaðurinn er sagður það ljótasta kvikindi sem nokkur maður getur augum litið. Hann kemur sjaldan upp á land en þá gengur hann á tveimur fótum og dregur þungan magann eftir jörðinni. Hann er með stuttar hendur með langar klær og andlit sem er lítið annað en kjaftur og augu. Sagt er að menn hafi orðið vitstola af því einu að horfa framan í Hafmanninn. Hafmaðurinn sást síðast fyrir um 150 árum.
Þú getur séð öll þessi hræðilegu skrímsli á Skrímslasetrinu á Bíldudal. Hér á vef Skrímslasetursins má finna meiri upplýsingar um skrímslin ógurlegu.
Skrímslasetrið er hluti af Vestfjarðaleiðinni. Sjá nánar á vef Vestfjarðarleiðarinnar.
Við mælum með að þið heimsækið líka félaga okkar á Minjasafninu á Hnjóti.








