Síldarminjasafn Íslands

ArfleifðByggingarIðnaður

Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, stærsta sjóminja- og iðnaðarsafn landsins,  er í fimm húsum að grunnfleti alls um 2500 m².

Róaldsbrakki er norskt síldarhús, byggt 1906-1907 fyrir Olaf Roald í Álasundi. Síðast var þar söltuð síld árið 1968. Endurbygging hússins hófst árið 1990 og var vígt sem safnhús 1994. Róaldsbrakki er hluti af hinni miklu söltunarstöð sem rekin var í rúmlega 60 ár og er um leið mjög glæsilegur minnisvarði um áhrif og umsvif Norðmanna í síldarútveginum á Íslandi. Á neðstu hæð hússins er sýning um síldarsöltun með samspili gamalla muna, mynda og texta. Framhald þeirrar sýningar er á annarri hæð, þar sem útflutningi síldarafurða og skipulagi söltunar eru gerð skil. Þá er þar yfirlit yfir síldarstaðina í landinu og svolítið um áhrif Norðmanna í síldarútveginum hérlendis. Gamlar kvikmyndir eru sýndar á skjá. Að stórum hluta er gamli síldarbrakkinn sýndur eins og hann var á síldarárunum þegar tugir síldarstúlkna bjuggu þar á sumrin.

Bræðsluhúsið Grána var byggt 1999-2000, að mestu úr viðum gamallar fiskimjölsverksmiðju. Þar eru uppsettar vélar og tæki til að sýna íslensku síldarverksmiðjuna á árunum 1935-45. Lýst er framleiðsluferlinu frá því að síldin kemur inn í verksmiðjuna og þangað til dýrmætar afurðir, lýsi og mjöl, fara til frekari iðnaðar og landbúnaðar erlendis. Gránusýningin var opnuð árið 2004.

Bátahúsið var byggt 2003-2004 og vígt af Hákoni krónprinsi Noregs í júní 2004. Í anddyri þess er uppsett gömul veiðarfæraverslun. Einnig er í forskálanum sýning um líffræði síldarinnar og síldarleit. Í meginsýningarrými Bátahússins er endursköpuð stemning síldarhafnarinnar frá 1950-55. Þar liggja síldarskip og bátar við bryggjur með viðeigandi veiðarfærum og gamlar kvikmyndir frá síldveiðum sýndar á stóru tjaldi. Í bryggjuskúrum eru netagerðarmönnum og smábátaútgerð gerð skil.

Samtengd Bræðsluhúsinu Gránu er Njarðarskemma, síldarpakkhús frá 1930 og með sýningu á margvíslegum tækniminjum.

Salthúsið er nýjasta viðbótin við Síldarminjasafnið. Uppbygging hússins hefur staðið yfir frá 2014, er það var flutt sjóleiðis frá Akureyri til Siglufjarðar. Þar er nú hvert rými á fætur öðru að taka á sig endanlega mynd.

Í rúm þrjátíu ár hefur Síldarminjasafnið sett upp söltunarsýningar. Lengi var hefð fyrir því að salta á planinu við Róaldsbrakka alla laugardaga í júlí, en í seinni tíð fara slíkar sýningar fram allt sumarið, eftir bókunum ferðahópa.

Tíu hugmyndir að afþreyingu á Siglufirði og við Eyjafjörð:

  1. Heimsæktu Þjóðlagasetrið á Siglufirði.
  2. Gæddu þér á gómsætum réttum á einhverjum af úrvals veitingastöðum Siglufjarðar.
  3. Komdu að vetri til og upplifðu skíðasvæðin á Siglufirði,  Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri.
  4. Upplifðu friðæld Hríseyjar í miðjum Eyjafirði, sem er þekkt fyrir ríkulegt fuglalíf og hákarlaveiðisögu.
  5. Farðu í bjórböðin á Árskógssandi og smakkaðu á framleiðslunni, Kalda bjór. Þá eru nýju Skógarböðin við Akureyri heimur út af fyrir sig.
  6. Farðu í hvalaskoðun frá  Ólafsfirði eða Akureyri á ferð þinni um fallegan Eyjafjörðinn.
  7. Skoðaðu Minjasafn Akureyrar og kynntu þér sögu svæðisins, einnig Flugsafn Íslands og Mótorhjólasafn Íslands þar í bæ.
  8. Sundlaug Akureyrar er vatnaparadís fyrir alla fjölskylduna. Þar eru tvær 25 metra laugar, þrjár nýjar rennibrautir og ein þeirra sú lengsta á Íslandi.
  9. Prófaðu stand-up paddleboarding, kajak róður eða einhverjar aðrar skemmtilegar vatnsíþróttir á Pollinum við Akureyri.
  10. Aktu inn í Eyjafjarðarsveit og skoðaðu Jólahúsið, Smámunasafnið, kirkjurnar og fleiri staði.

Nánari upplýsingar og hugmyndir á www.northicelandi.is

Snorragötu 10, 580 Siglufjörður
safn@sild.is
www.sild.is
467 1604
Opnunartímar:
  • Júní-ágúst 10-18.
  • Maí og september 11-17.
  • Október-apríl eftir samkomulagi.

Síldarminjasafnið hlaut Íslensku safnaverðlaunin árið 2000 og Evrópuverðlaun safna árið 2004.

HreinlætisaðstaðaLeiðsögnMinjagripasalaSýning
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is