Hernámssetrið í Hvalfirði
Hernámssetrið að Hlöðum í Hvalfirði var opnað árið 2012. Þar er sögð einstök og merkileg saga hernáms á árunum 1940 til 1945, saga sem breytti friðsælli sveit í umgjörð heimsviðburða og skipti sköpum fyrir sigur bandamanna í síðari heimsstyrjöld. Þar getur að líta vandað safn minja og minninga sem tengjast sögu hernáms í Hvalfirði á þessum örlagaríku umrótatímum.
Hernámssetrið rekur sögu hersetunnar og skipalestanna, sem lögðu upp í langa og erfiða siglingu frá bækistöðinni í Hvalfirði, og gefur innlendum og erlendum ferðamönnum kost á að kynna sér þessa sögu og arfleifð hennar.
Helstu efnisþættir sem eru til sýnis á Hernámssetinu:
- Bandaríkin
- Börn og leikföng
- Bretland
- Hjúkrun
- Ísland
- Krambúð
- Landhelgisgæslan (1926-45)
- Öryggis og varnarmál
- Rakarastofa
- Rússland
- Þýskaland
Kaffihús og minjgripasala eru á staðnum. Einnig gott tjaldsvæði sem er opið júní-ágúst.
Tíu hugmyndir að afþreyingu í Hvalfirði og nágrenni:
- Farðu inn í Botnsdal í Hvalfirði og gakktu upp að Glym, hæsta fossi á Íslandi (198 m).
- Kíktu á nýja baðstaðinn í Hvammsvík við sunnanverðan Hvalfjörð.
- Slappaðu af í Guðlaugu, náttúrulauginni á Langasandi á Akranesi og leiktu við börnin á ströndinni.
- Heimsæktu Byggðasafn Akraness í Görðum og fræðstu um sögu staðarins í gegnum aldirnar.
- Skoðaðu Akranesvita (þeir eru tveir!) og fallegt umhverfi þeirra.
- Gakktu upp á Akrafjall, þú verður ekki svikinn af útsýninu þar.
- Komdu við á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri og á Ullarselinu þar og fáðu sögu landbúnaðar á Íslandi beint í æð.
- Kynntu þér íslensku geitina, sem er einstakt kyn, og afurðir hennar í geitabúinu að Háafelli.
- Heimsæktu Landámssetrið í Borgarnesi og fræðstu um sögu landnáms Íslands, um Egil Skallagrímsson eða farðu á viðburð á Söguloftinu.
- Leggstu í bleyti í Kraumu heilsulind við Deildartunguhver, öflugasta hver í Evrópu.
Nánari upplýsingar á www.west.is