Gljúfrasteinn – Hús skáldsins

BókmenntirByggingarMargmiðlunTónlistViðburðir

Halldór Laxness (1902-1998) upplifði mestu breytingar sem orðið hafa á einni öld í sögu Íslands; þegar hann hóf að skrifa var Ísland í raun enn bændasamfélag, Reykjavík var smábær og meirihluti íbúa bjó í sveitum. Hann varð þannig þátttakandi í því að færa heila þjóð nánast frá miðöldum til nútímans. Það er þess vegna ekki að undra þótt menn segðu við fráfall hans að 20. öldin á Íslandi hafi verið öld Halldórs Laxness. Hann var lengi umdeildur fyrir stjórnmálaskoðanir sínar en eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955 má segja að þjóðin hafi sameinast um hann.

Halldór Laxness var fremstur í flokki íslenska rithöfunda á 20. öld. Hann var afkastamikill, skrifaði þrettán stórar skáldsögur, fimm leikrit og leikgerð að einni skáldsögunni, fyrir utan smásagnasöfn, greinasöfn og endurminningarbækur. Bækur hans hafa verið þýddar á 43 tungumál og komið út í meira en 500 útgáfum. Fjölbreytni verka hans á sér fáar hliðstæður og má segja að með hverri bók hafi hann komið að lesendum sínum úr óvæntri átt. Þá þýddi hann m.a. Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson, Birtíng eftir Voltaire og Vopnin kvödd og Veislu í farángrinum eftir Ernest Hemingway.

Gljúfrasteinn, hús Halldórs Kiljans og Auðar Sveinsdóttur Laxness, var reist í Mosfellsdal árið 1945. Halldór hafði valið því stað neðan við samnefndan stein í landareign Laxnessbæjarins, þar sem hann undi sér oft sem ungur drengur. Húsið var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Íslenska ríkið keypti húsið árið 2002, þegar öld var liðin frá fæðingu skáldsins og tveimur árum síðar var það opnað almenningi.

Stofutónleikar eru haldnir að Gljúfrasteini alla sunnudaga í júní, júlí og ágúst kl. 16.

 

Gljúfrasteini, 271 Mosfellsbæ
gljufrasteinn@gljufrasteinn.is
www.gljufrasteinn.is
586 8066
Opnunartímar:
  • Mars-maí: alla daga nema mánudaga 10-16.
  • Júní-ágúst: alla daga 10-17.
  • September-október: alla daga nema mánudaga 10-16.
  • Nóvember-febrúar: þriðjudaga og föstudaga 10-16.

Í móttökuhúsinu er hægt að bóka í skoðunarferðir en gestum er ráðlagt að bóka fyrirfram með því að senda tölvupóst á gljufrasteinn@gljufrasteinn.is eða hringja í síma 586-8066.

HljóðleiðsögnHreinlætisaðstaðaLeiðsögnMinjagripasalaSýning
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is