Galdrasýningin á Hólmavík
Galdrasýningin á Hólmavík – galdrafár, þjóðtrú og menning á Ströndum
Á Galdrasýningunni í Hólmavík er dregin upp mynd af myrkri öld í Íslandssögunni. Þar er saga galdrafársins á 17. öld fléttuð saman við þjóðtrú og menningararf sem lifði áfram í hugum fólks. Yfir 200 mál komu upp á Íslandi á þessum tíma og 21 einstaklingur var dæmdur til dauða fyrir galdra. Sýningin varpar ljósi á þessa dramatísku sögu og sýnir hvernig íslenskur galdur var ólíkur því sem þekktist annars staðar í Evrópu.
Hvað er á sýningunni?
Gestir fá að sjá afrit af galdraskræðum, galdrastafi og gripum sem tengdust málunum. Á efri hæð er fjallað um kærendur og dómarana sem stóðu að málunum, auk þess sem sagt er frá merkustu galdramálunum. Sýningin er lifandi frásögn af því hvernig fólk ímyndaði sér að hægt væri að nýta yfirnáttúrulega krafta til að hafa áhrif á daglegt líf.
Staðsetning og aðgengi
Galdrasýningin er í svörtu húsi við höfnina í gamla hluta Hólmavíkur, að Höfðagötu 8–10. Bílastæði eru næg og eitt stæði er beint við innganginn fyrir fatlaða. Aðgengi er gott á neðri hæð, þar sem stærsti hluti sýningarinnar og veitingastaðurinn eru, en því miður ekki á efri hæð. Gestir í hjólastól fá ókeypis aðgang.
Veitingastaðurinn Galdur
Í sama húsi er veitingastaðurinn Galdur þar sem boðið er upp á ljúffenga rétti úr hráefni úr nærumhverfinu. Á matseðlinum eru einnig grænmetisréttir. Þar má fá nýlagað kaffi og bakkelsi og njóta hlýlegrar stemningar.
Safnbúð og minjagripir
Í safnbúðinni er fjölbreytt úrval bóka um galdra, rúnir og þjóðsögur. Þar má einnig finna minjagripi innblásna af galdrastöfum sem hægt er að kaupa á staðnum eða panta í vefverslun. Þetta er kjörinn staður til að taka með sér minningu úr heimsókninni.
Galdratúnið og viðburðir
Við safnið er grasvöllur þar sem gestir geta notið friðsældar og útsýnis yfir höfnina. Þar hafa verið haldnir fjölbreyttir viðburðir, meðal annars Galdraleikar sem byggja á hugmyndum úr Harry Potter bókunum. Á túninu stendur einnig stytta af Klemusi Bjarnasyni, síðasta manni sem fékk brennudóm fyrir galdra á Íslandi, en dómnum var síðar breytt í útlegð. Verkið er eftir Arngrím Sigurðsson og minnir á söguna sem sýningin endurspeglar.
Tíu hugmyndir að afþreyingu á Hólmavík, Ströndum og nágrenni
- Farðu í hvalaskoðun frá Hólmavík með Láki Tours.
- Skeltu þér í bað í sundlauginni á Hólmavík eða í Drangsnesi.
- Heimsæktu Sauðfjársetrið á Sævangi og fáðu fræðslu um mikilvægi sauðkindarinnar og sérstöðu Strandafjárins.
- Skoðaðu Kotbýli Kuklarans og baðaðu þig svo í sundlauginni að Laugahóli í Bjarnarfirði.
- Heimsæktu Drangsnes og farðu í bátsferð út í Grímsey á Steingrímsfirði þar sem m.a. er mikil lundabyggð.
- Gerðu þér ferð norður í Árneshrepp á Ströndum og kynnstu síldarsögunni á Djúpuvík og Ingólfsfirði, skoðaðu Hvalárfoss í Ófeigsfirði og hina frábæru Krossneslaug.
- Renndu yfir Steingrímsfjarðarheiði og heimsæktu Heydal í Mjóafirði, Reykjalaug eða farðu út Snæfjallaströndina og skoðaðu sýningu um skáldið Stein Steinarr.
- Skoðaðu hlunnindasafnið á Reykhólum og baðaðu þig í þara í Sjávarsmiðjunni.
- Skrepptu yfir að Ólafsdal í Gilsfirði, hvar fyrsti búnaðarskóli á Íslandi var stofnaður árið 1880, þar sem mikil uppbygging á sér stað. Skoðaðu landnámsskálann sem þar fannst árið 2017.
- Í Dölunum er einnig spennandi að heimsækja dýragarðinn á Hólum í Hvammssveit, Vínlandssetrið í Búðardal og Eiríksstaði í Haukadal.
Nánari upplýsingar og hugmyndir á westfjords.is og visitdalir.is




