Sjóminjasafnið Ósvör
Sjóminjasafnið í Ósvör samanstendur af tvöfaldri 19. aldar verbúð, salthúsi, fiskreit og þurrkhjalli. Á meðal sýningagripa er áraskipið Ölver sem gefur góða mynd af þeim skipum sem notuð voru til fiskveiða fyrr á öldum. Safnið gefur raunhæfa mynd af aðbúnaði vertíðarfólks og þeim búnaði sem notaður var til fiskvinnslu á vetrarvertíð á 19. öld. Safnvörðurinn tekur á móti gestum, íklæddur skinnklæðum, samskonar þeim sem notuð voru við sjósókn í Bolungarvík og lýsir því sem fyrir augu ber.
Tíu hugmyndir að afþreyingu á norðanverðum Vestfjörðum:
- Skoðaðu útsýnið af nýjum útsýnispalli á Bolafjalli, ef þú þorir!
- Heimsæktu Minjasafn Vestfjarða á Ísafirði og fræðstu um sögu svæðisins.
- Farðu í gönguferð um gamla bæinn á Ísafirði með Ísafjörður Guide og fræðstu um sögu húsanna og fólksins sem þar bjó.
- Farðu í sjóstangveiði og veiddu í soðið.
- Kynntu þér fyrsta landnema Íslands í Melrakkasetrinu í Súðavík.
- Sigldu til Hornstranda eða út í eyjuna Vigur á Ísafjarðardjúpi.
- Skoðaðu Gömlu smiðjuna á Þingeyri frá 1913 þar sem allar vélar virka enn.
- Skoðaðu listigarðinn Skrúð í Dýrafirði, sem aðrir skrúðgarðar á Íslandi draga nafn sitt af.
- Leggðu upp í kajak-leiðangur framhjá söguslóðum, selum og fuglum.
- Gakktu upp með Dynjanda, frægasta fossi Vestfjarða.
Nánari upplýsingar á www.westfjords.is