Sagnheimar, Vestmannaeyjum
Sagnheimum í Vestmannaeyjum tilheyra þrjú söfn: Byggðasafnið, Náttúrugripasafnið og Skanssvæðið. Stuðst er við nýjustu tækni við að miðla fræðslu til gesta. Stór hluti sýningarsvæðisins í byggðasafninu er svokallað bryggjusvæði þar sem hlusta má á átakanlegar sjóslysasögur, ótrúleg björgunarafrek og sjómannasöngva, skoða beituskúr, verbúð og bjargveiðikofa.
Tyrkjaránið, á einnig sinn sess á sýningunni, en árið 1627 námu sjóræningjar íbúa eyjanna á brott og seldu sem þræla. Einnig er þar fjallað um Heimaeyjargosið, Þjóðhátíð Vestmannaeyja, ferðir íslenskra mormóna til Utah sem margir komu frá Eyjum og margt fleira.
Tíu tillögur að afþreyingu í Vestmannaeyjum og á fastalandinu í nágrenninu.
- Gakktu á fell og kletta á Heimaey, svo sem Heimaklett, Helgafell og Eldfell sem varð til í gosinu árið 1973. Þaðan er frábært útsýni yfir eyjarnar og upp á land.
- Farðu í siglingu um eyjarnar. Sjáðu þar meðal annars „Fílinn“, klett sem líkist fílshöfði, lunda og aðra sjófugla.
- Skoðaðu gosminjasýninguna í Eldheimum þar sem fjallað er um Heimaeyjargosið árið 1973 á áhrifamikinn hátt.
- Prófaðu að sveifla þér í Spröngunni (kaðall með hnútum), sem er erfiðara en sýnist.
- Heimaey hentar vel til að fara á kajak, stunda hjólreiðar, sjóböð, golf … og fleira!
- Matgæðingar njóta sín vel á góðum veitingastöðum í Eyjum og þar er einnig brugghús!
- Skoðaðu Skansinn, fallbyssuvirki frá 17. öld, þar sem Stafkirkjan og lækningaminjasafnið í Landlyst eru staðsett.
- Aftur til meginlandsins: „Safnaðu“ fossum á Suðurlandi. Áhugaverðir fossar eru meðal annars Skógafoss, Seljalandsfoss, Hjálparfoss, Háifoss og Gullfoss.
- Farðu í skipulagða jöklagöngu á Sólheimajökul og í snjósleðaferð á Mýrdalsjökul.
- Skoðaðu svartan sandinn í Reynisfjöru, brimið, stuðlabergsklettana og Reynisdranga. En farðu varlega, öldurnar geta verið lífshættulegar!
Nánari upplýsingar og hugmyndir á www.visitvestmannaeyjar.is og www.south.is