Frakkar á Íslandsmiðum

ArfleifðByggingarSjávarútvegur
Frakkar á Íslandsmiðum er nýjasta perlan á safnastreng Fjarðabyggðar. Safnið er til húsa í tveimur reisulegum byggingum sem Frakkar reistu upp úr aldamótunum 1900: Læknishúsinu og Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði. Meginsýningin er þó í undirgöngum sem tengja húsin saman og skapa einstaka upplifun fyrir gesti.

Saga franskra sjómanna á Íslandsmiðum

Blómatími Frakka á Íslandsmiðum hófst um 1860 og stóð í um 50 ár. Á sýningunni er saga franskra skútusjómanna á Íslandi rakin, en Fáskrúðsfjörður var helsta bækistöð þeirra hér við land. Lifandi nærmynd er brugðið upp af lífi sjómanna um borð í frönsku skútunum sem sóttu Íslandsmið og áhorfendur skynja glöggt daglegt líf þeirra og aðstæður.

Franski spítalinn og læknishúsið

Safnið veitir einnig glögga innsýn í starfsemi Franska spítalans upp úr aldamótunum 1900. Þar má fræðast um hvernig franskir sjómenn fengu læknisaðstoð á Fáskrúðsfirði og hvernig byggingarnar gegndu lykilhlutverki í samfélaginu. Læknishúsið og spítalinn eru í dag endurbyggð og varðveitt sem hluti af menningararfi svæðisins.

Endurgerð Frönsku húsanna

Endurgerð Minjaverndar á Frönsku húsunum á Fáskrúðsfirði lauk sumarið 2014. Húsin eru alls fimm: Læknishúsið, Franski spítalinn, Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið. Endurreisnarsaga húsanna er með merkari framkvæmdum Minjaverndar og sú viðamesta utan höfuðborgarsvæðisins.

Nútímastarfsemi Frönsku húsanna

Í dag gegna Frönsku húsin mikilvægu hlutverki fyrir bæjarlíf Fáskrúðsfjarðar. Þar er nú Fosshótel Austfirðir, sælkerastaðurinn l’Abri og safnahús Fransmanna á Íslandi. Litla kapellan hlaut blessun 26. júlí 2014 og er eina byggingin sem heldur upprunalegu hlutverki sínu.

Opnunartími safnsins

Safnið Frakkar á Íslandsmiðum er opið alla daga kl. 10:00–18:00 frá 15. maí til 30. september.
Utan þess tíma er hægt að bóka heimsóknir eftir samkomulagi í síma 470 9063 eða senda tölvupóst á sofn@fjardabyggd.is

Hafnargata 12 , 750 Fáskrúðsfjörður
safnastofnun@fjardabyggd.is
475 1170
470 9063
Opnunartímar:
  • Sýningin er opin alla daga 15. maí – 30. september 10-18.
  • Utan þess tíma eftir samkomulagi í síma 470 9063 eða sofn@fjardabyggd.is
GistingHreinlætisaðstaðaSýningVeitingar
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is