Rokksafn Íslands
Rokkið lifir í Reykjanesbæ! Rokksafn Íslands, safn um sögu popp- og rokktónlistar á Íslandi, er staðsett í Hljómahöll í Reykjanesbæ. Á safninu er að finna tímalínu um sögu íslenskrar tónlistar á Íslandi allt frá árinu 1830 til dagsins í dag. Þar er einnig lítill kvikmyndasalur þar sem sýndar eru ýmsar heimildarmyndir um íslenska tónlist og hljóðbúr þar sem gestir geta leikið lausum hala og prófað rafmagnstrommusett, gítar, bassa og sungið í sérhönnuðum söngklefa.
Á meðal muna á safninu er trommusett Gunnars Jökuls Hákonarsonar sem var m.a. notað á meistaraverkinu Lifun með Trúbrot, kjól sem Emilíana Torrini klæddist í myndbandinu Jungle Drum, tréskúlptúr af reggí-hljómsveitinni Hjálmum, lúðrasveitarjakka sem Stuðmenn klæddust í myndinni Með allt á hreinu, kjól af Ellý Vilhjálms, föt af Rúnari Júlíussyni, jakkaföt af Herberti Guðmundssyni og þannig mætti lengi telja
Góð Rokkbúð og kaffi frá Kaffitári.
Tíu hugmyndir af afþreyingu á Reykjanesi:
- Á Reykjanesi eru fjölmargar fallegar gönguleiðir. Ef þú kýst gott útsýni er upplagð að ganga á fjallið Keili eða á Þorbjörn rétt við Grindavík.
- Víkingaheimar eru í fallega hannaðri byggingu í Reykjanesbæ. Miðpunktur þess er víkingaskipið Íslendingur sem sigldi frá Íslandi til New York árið 2000. Það er eftirlíking af Gaukstaðaskipinu sem fannst í Noregi árið 1880.
- Gakktu yfir brúna milli heimsálfa; hvergi er auðveldara að fara á milli Evrópu og Norður-Ameríku!
- Skoðaðu aðra staði í Reykjanes jarðvangi, svo sem hið nýja Fagradalshraun í Geldingadölum, fallega hraunhella í eldri hraunum, Gunnhver eða Brimketil
- Dáðustu að litríku jarðhitasvæðinu í Seltúni við Krýsuvík og sjáðu gufurnar frá hverunum stíga upp með tilheyrandi brennisteinslykt.
- Gakktu meðfram Kleifarvatni og upplifðu magnað dökkt tungllandslagið þar. Lestu síðan samnefnda bók Arnaldar Indriðasonar glæpasagnahöfundar.
- Skoðaðu tignarlegan Reykjanesvita, en þar skammt frá var fyrsti viti á Íslandi reistur 1908. Þar er stytta af síðasta Geirfuglinum, með útsýni til Eldeyjar, þar sem síðasti fuglinn var drepinn 1844.
- Það eru einnig blómlegar fuglabyggðir á Reykjanesi. Krýsuvíkurbjarg er stærsta fuglabjarg nessins með um 60.000 varpfugla á sumrin.
- Ef þú ert á ferðinni myrkri skaltu fylgjast vel með norðurljósaspánni. Í heiðskíru veðri er hrífandi útsýni við Garðskagavita. Brimið þar getur einnig verið stórfenglegt þegar vindur blæs.
- Skelltu þér í eina af sundlaugum eða baðstöðum svæðisins. Vatnaveröld í Keflavík er tilvalin fyrir fjölskyldur og ekki má gleyma hinu heimsfræga Bláa Lóni.
Nánari upplýsingar á www.visitreykjanes.is