Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi

AtvinnulífIðnaðurList

Það má segja að Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi geymi fyrst og fremst hina gleymdu iðju frá fortíð til nútíðar. Lögð er áhersla á að veita innsýn í vinnu kvenna og karla sem fram fór á heimilum og var stór þáttur hins daglega lífs. Þessi tóvinna var útflutningsiðnaður um aldir – „stóriðja þess tíma“ – þar sem ullinni var breytt í verslunarvöru. Það hefur verið hljótt um þessa vinnu og hvernig hvert heimili var sjálfbjarga um að breyta ull í fat og nýta til fullnustu það hráefni sem til féll.

Í safninu má greina hluta af atvinnusögu þjóðarinnar og sjá hvernig sjálfþurftarbúskabur og heimilisiðja mæta nútíma viðskiptabúskap á seinni hluta nítjándu aldar og fram á þá tuttugustu.

Eftirtaldar sýningar eru nú í safninu:

  • Sýning á útsaumi: Þessari sýningu er sérstaklega ætlað að skapa upplifun og hughrif. Á sýningunni er til sýnis einkar fallegur nærklæðnaður kvenna frá fyrri tíð ásamt listilegum útsaumi, hekli og orkeringu. Til að skapa fjölbreytni og til að nýta sem best muni safnsins, er ýmsum munum skipt út á milli ára.
  • Sýning á þjóðbúningum: Safnið hefur að geyma úrval íslenskra þjóðbúninga. Þar eru skautbúningar, upphlutir og peysuföt. Sumir búninganna eru frá seinnihluta 19. aldar og upphafi 20. aldar.
  • Ullarsýning: Í þessari sýningu geta gestir fengið að þreifa á íslensku ullinni og finna mismuninn á togi og þeli. Á sýningunni er að sjá afar falleg handgerð sjöl, prjónuð og hekluð úr togi eða þeli. Í sumum þeirra hefur þráðurinn verið jurtalitaður en í öðrum fá náttúrulegir litir að njóta sín. Margar gerðir af útprjónuðum vettlingum, sokkum ásamt ýmsu fleiru má sjá í þessari sýningu.
  • Halldórustofa: Halldórustofa er deild innan Heimilisiðnaðarsafnsins, staðsett í efri hluta gamla safnhússins. Hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur(1873-1981) sem var þjóðkunn kona. Hún var heimilisráðunautur Búnaðarfélags Íslands, gaf út ársritið Hlín um 44 ára skeið og stofnaði og rak Tóvinnuskólann á Svalbarði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þekktust var Halldóra fyrir brautryðjandastörf er varða mennt og menningu kvenna og eflingu heimilisiðnaðar á tuttugustu öld.

 

 

 

Ásbraut 29, 540 Blönduós
textile@textile.is
www.textile.is
452 4067
Opnunartímar:

Opið 1. júní – 31. ágúst  10-17

HreinlætisaðstaðaLeiðsögnMinjagripasalaSýning
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is