Sjóminjasafnið á Hellissandi
Í Sjóminjasafninu í Sjómannagarðinum á Hellissandi eru varðveitt tvö áraskip, áttæringarnir Bliki og Ólafur Skagfjörð. Blika smíðaði Sæmundur Sigurðsson skipasmiður frá Geitareyjum fyrir Jón Jónsson bónda í Akureyjum í Helgafellsveit árið 1826. Bliki er elsta fiskveiðiskip sem varðveitt er á Íslandi. Ólafur var smíðaður í Flatey á Breiðafirði 1875 – 1880. Báðum skipunum var róið frá Hellissandi fram á sjöunda áratug tuttugustu aldar.
Í Sjóminjasafninu er endurbyggð sú þurrabúð sem síðast var búið í á Hellissandi, Þorvaldarbúð. Þar eru einnig ýmsir gamlir munir, vélar, veiðarfæri, hvalbein, myndir ofl.
Á safninu er einnig kaffistofa og minjagripaverslun.
Tíu hugmyndir að afþreyingu á Snæfellsnesi:
- Heimsæktu nýju gestamiðstöð Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á Hellissandi og fáðu fræðslu um einstaka náttúru svæðisins.
- Frystiklefinn á Rifi er menningarmiðstöð á svæðinu. Kynntu þér dagskrá hans.
- Skoðaðu einstaka staði innan þjóðgarðsins svo sem Malarrif, Þúfubjarg og Lóndranga, Saxhól og Djúpalónssand.
- Þá er það sérstök upplifun að skoða Vatnshelli með leiðsögn.
- Arnarstapi er heimur út af fyrir sig með miklu fuglalífi, minnisvarða um Bárð Snæfellsás og myndefni við hvert fótmál.
- Farðu í skipulagða ferð á Snæfellsjökul er útsýnið frá toppi hans er stórkostlegt.
- Skoðaðu Kirkjufossa nærri Kirkjufelli við Grundarfjörð, einn fjölsóttasta ferðamannastað á Snæfellsnesi.
- Skoðaðu sýningu um hákarlaveiðar Bjarnarhöfn skammt vestan við Stykkishólm. Þar má líka versla verkaðan hákarl.
- Farðu í ógleymanlega siglingu um Breiðafjörð með Sæferðum í Stykkishólmi.
- Skoðaðu Byggðasafn Snæfellinga í Norska húsinu í Stykkishólmi og Vatnasafnið þar skammt undan.
Nánari upplýsingar og hugmyndir á www.west.is