Oddi á Rangárvöllum

ArfleifðBókmenntirMinjarVíkingar

Sögustaður, kirkjustaður og höfðingjasetur

Oddi á Rangárvöllum er einn merkasti sögustaður Íslands, kirkjustaður frá upphafi kristni og fornt höfðingja- og menntasetur Oddaverja. Bærinn stendur á grænum odda milli Ytri- og Eystri-Rangár og Þverár og var um aldir stórbýli með víðáttumiklum engjum og fjölmörgum hjáleigum. Á þjóðveldisöld var Oddi ein áhrifamesta valdamiðstöð landsins og þar mótaðist menningar- og fræðalíf sem hafði djúpstæð áhrif á íslenska sögu.

Sæmundur fróði og Oddaverjar

Sæmundur fróði Sigfússon

Sæmundur fróði Sigfússon (1056–1133) er þekktastur Oddaverja. Hann stundaði nám við Svartaskóla í París og er talinn meðal fyrstu íslensku sagnaritara sem sömdu rit um Noregskonunga. Um hann hafa varðveist fjölmargar þjóðsögur sem endurspegla virðingu og aðdáun samtímamanna.

Jón Loftsson og Snorri Sturluson

Sonarsonur Sæmundar, Jón Loftsson, var einn valdamesti höfðingi landsins og jafnframt ástsæll og friðsamur leiðtogi. Hann tók hinn unga Snorra Sturluson í fóstur og menntaði hann í Odda, þar sem Snorri hlaut þá fræðslu og menningarlegu mótun sem síðar varð grunnur að ritum hans á borð við Heimskringlu.

Oddaverjar og vald þeirra

Oddaverjar réðu ríkjum í Odda í tvær aldir, en eftir átök Sturlungaaldar leið veldi þeirra undir lok um 1300. Sex prestar sem þjónuðu í Odda urðu síðar biskupar á Íslandi, sem undirstrikar mikilvægi staðarins í kirkjusögu þjóðarinnar.

Oddakirkja og helgir gripir

Núverandi kirkja

Núverandi Oddakirkja er timburkirkja frá árinu 1924, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Hún tekur um hundrað manns í sæti. Jón (1903-1980) og Gréta Björnsson (1908-1985) máluðu kirkjuna 1953, prédikunarstól, skírnarsá, altari og bekki.

Merkir gripir

Í kirkjunni eru varðveittir margir merkilegir gripir, þar á meðal silfurkaleikur sem talinn er frá um 1300, altaristafla frá 1895 sem sýnir Krist í grasagarðinum í Getsemane og útskorinn og málaður skírnarfontur eftir Ámunda snikkara Jónsson.

Sæmundur á selnum

Skammt frá kirkjunni stendur afsteypa af styttu Ásmundar Sveinssonar, Sæmundur á selnum, en frumgerðin stendur við aðalbyggingu Háskóla Íslands. Verkið tengir saman þjóðsögur, frásagnarhefð og menningararf Odda.

Fornleifarannsóknir og manngerðir hellar

Hellakerfið í Odda

Fornleifarannsóknir sem hófust árið 1918 hafa leitt í ljós þrjá manngerðra hella frá 10. öld, tveir þeirra stærstu eru fallnir en sá þriðji stendur enn og hefur verið rannsakaður síðustu ár.

Torfhlaðin mannvirki og miðaldafjós

Við rannsóknir hafa fundist torfhlaðin mannvirki, þar á meðal forskáli sem var notaður fram að aldamótum 1100. Nýlega fannst einnig fjós frá miðöldum og undir vegg þess kom í ljós hauskúpa stórgrips, líklega hests, sem telst dæmi um húsfórn – sið sem virðist hafa tíðkast í Odda um aldir.

Oddafélagið og lifandi menningarstarf

Fræðasetrið Sæmundarstofa

Oddafélagið var stofnað árið 1990 og hefur það að markmiði að efla fræðasetrið í Odda og vinna að uppbyggingu Sæmundarstofu, menningar- og fræðaseturs með sýningarsal, viðburðaaðstöðu, bókhlöðu og íbúð fyrir fræðimenn.

Oddastefna og viðburðir

Árlega heldur félagið Oddastefnu þar sem flutt eru erindi um sögu staðarins og nýjar rannsóknir kynntar. Starfsemi félagsins heldur arfleifð Odda lifandi og gerir gestum kleift að nálgast söguna á lifandi og aðgengilegan hátt.

Oddi í ljóði og menningararfi

Matthías Jochumsson í Odda

Presturinn og skáldið Matthías Jochumsson þjónaði í Odda á 19. öld og orti um staðinn hið þekkta kvæði sem hefst á línunum: „Eg geng á Gammabrekku / er glóa vallartár…“ Kvæðið fangar andrúmsloft staðarins og trúarlega ró sem hefur einkennt Odda um aldir.

Oddi á Rangárvöllum í dag

Oddi er í dag einstakur áfangastaður fyrir þau sem vilja upplifa íslenska miðaldasögu, kirkjusögu og lifandi menningararf í landslagi sem hefur mótast af frásögnum, trú, valdi og fróðleik í yfir þúsund ár. Saga staðarins lifir áfram í kirkjunni, fornleifunum, þjóðsögunum og menningarstarfinu sem heldur arfleifð Odda á lofti.

Afþreying og upplifanir á Suðurlandi

Suðurland býður upp á fjölbreytta náttúru, sögu og upplifanir. Hér eru tíu hugmyndir að afþreyingu í nágrenni Odda og víðar á svæðinu.

  1. Skoðaðu sögustaði Njáls sögu og vel varðveitta torfbæinn að Keldum á Rangárvöllum.
  2. Heimsæktu eldfjalla- og jarðskjálftasýninguna LAVA á Hvolsvelli og Eldheima í Vestmannaeyjum.
  3. „Safnaðu“ fossum á Suðurlandi; áhugaverðir fossar eru meðal annars Gullfoss, Hjálparfoss, Háifoss, Gljúfrabúi og Seljalandsfoss.
  4. Skoðaðu hið fjölbreytta Skógasafn, eitt mest sótta safn á Íslandi.
  5. Ganga yfir Fimmvörðuháls, frá Skógum til Þórsmerkur, er ein vinsælasta gönguleið landsins.
  6. Farðu í skipulagða jöklagöngu á Sólheimajökul eða í snjósleðaferð á Mýrdalsjökul.
  7. Baðaðu þig í Seljavallalaug eða í náttúrulauginni í Landmannalaugum.
  8. Gakktu inn í Rútshelli, líklega elsta manngerða helli á Íslandi, eða heimsæktu hellana við Hellu.
  9. Finndu til smæðar þinnar við Skógafoss og farðu göngustíginn upp að brún hans. Ef þú heldur áfram upp með Skógaá sérðu fjölda minni fossa.
  10. Skoðaðu nýja miðbæinn á Selfossi þar sem endurgerð eru þekkt íslensk hús frá um 1900. Þar er einnig Skyrsýningin.

Nánari upplýsingar og fleiri hugmyndir má finna á south.is.

Eystri-Kirkjubær, 851 Hella
ritstjori@oddafelagid.is
898 6316
Opnunartímar:

Oddi er aðgengilegur allt árið.

Oddahátíð er haldin fyrsta laugardag í júlí ár hvert.

HreinlætisaðstaðaMinjastaðurSöguslóð
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is