Akranesviti

ByggingarNáttúra

Tákn Vesturlands

Akranesviti stendur vestast á Akranesi og er eitt af helstu kennileitum Vesturlands. Vitarnir eru tveir: sá eldri var reistur árið 1918 á Suðurflös og er ferstrendur, hvítmálaður og 10 metra hár. Hann var byggður úr stálplötum sem bjargað var úr skipinu Goðafossi sem strandaði árið 1917.

Á árunum 1943–1944 var reistur nýr sívalur viti austan við þann eldri, eftir teikningu verkfræðingsins Axels Sigvaldasonar. Hann er 22,7 metrar á hæð og var tekinn í notkun árið 1947. Ljóseinkenni vitans er Fl(2)WRG 20s, sem þýðir tvö blikkljós í þrískiptum geira á 20 sekúndna fresti.

Ferðamannaupplifun í Akranesvita

Í dag er Akranesviti opinn almenningi og hefur orðið eitt vinsælasta aðdráttarafl Akraness. Gestir geta gengið upp í vitann og notið stórfenglegrar fjallasýnar frá Reykjanesskaga til Snæfellsjökuls. Vitinn er einnig notaður fyrir listsýningar og tónleika, þar sem hljómburðurinn er einstakur og upplifunin ógleymanleg.

Hvort sem þú hefur áhuga á sögu og menningu eða einfaldlega vilt njóta útsýnis og einstakrar stemningar þá er Akranesviti staður sem þú mátt ekki láta fram hjá þér fara.

Upplýsingar fyrir gesti

Upplýsingamiðstöð ferðamanna á Akranesi er starfrækt í þjónustuhúsi Akranesvita. Þar er hægt að fá nánari upplýsingar um vitann, opnunartíma og viðburði sem tengjast honum. Á vef Akraness má finna yfirlit helstu viðburða á svæðinu.

Hér á síðu markaðsstofu Vesturlands getur þú fengið fleiri hugmyndir að afþreyingu og upplifun á Vesturlandi.

 

Breiðin, 300 Akranes
hilmarphoto@simnet.is
894 3010
Opnunartímar:
  • 1. maí – 15. september alla daga 10-18.
  • 16. september – 30. apríl 11-17 mánudaga til föstudaga. Lokað um helgar.
LeiðsögnMinjagripasalaSýningUpplýsingar
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is